Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

 

 

Viðtöl á Skákþingi Íslands 2006

Erindrekar SÍ fóru á kreik meðan á Skákþingi Íslands stóð og leituðu svara tveggja valinkunnra meistara við ýmsum spurningum um mótið, skákina og margt fleira.

Róbert Harðarson Lagerman
Hjörvar Steinn Grétarsson

Annar viðmælenda var hinn kunni meistari Róbert Harðarson Lagerman, FIDE-meistari og einn af þessum jálkum, sem fá aldrei nóg af skák, en tefla og tefla meira. Hann tók ekki þátt í mótinu þetta skiptið, en mætti grimmt og fylgdist með félögum sínum.

Hinn viðmælandinn var yngsti þátttakandi í Skákþingi Íslands frá upphafi, Hjörvar Steinn Grétarsson. Drengur sá er baráttuglaður og lætur engan vaða yfir sig, ekki einu sinni reynsluboltanna og titilhafa. Hann er án efa efnilegasti skákmaður landsins um þessar mundir,  en hann hefur fæturna á jörðinni og lætur ekki glepjast sín.

 

Viðtal við Fide-meistarann Róbert Harðarson    
  
 

Róbert Harðarson24. ágúst 2006

Hinn kunni skákmeistari og FIDE-meistari Róbert Harðarson hefur mætt á hverjum degi til að fylgjast með keppni í landsliðsflokki Skákþings Íslands í Skákhöllinni Faxafeni 12. Við áttum stutt spjall við Róbert um upplifun hans sem áhorfanda.

Jæja Róbert, hvernig líst þér á þetta allt saman?!

Mér finnst þetta bara stórskemmtilegur viðburður og ég verð að hæla þessu fyrirkomulagi. Mér sýnist baráttan vera upp á líf og dauða í hverri einustu skák. Þetta fyrirkomulag býður upp á það að menn berjist. Það eru engin stórmeistarajafntefli heldur tefla menn af lífi og sál og hika ekki við að ná sínu fram. Svo er líka alltaf gaman þegar það koma svona óvænt úrlist, eins og þegar Tómas Björnsson lagði óskabarn þjóðarinnar Stefán Kristjánsson. Maður bíður jú alltaf eftir þessu óvænta í skákinni. Þarna sigraði Tómas sér mun stigahærri mann, ekki aðeins í einni skák heldur í tveggja skáka einvígi. Það er afrek.

Hverjar finnst þér hafa verið athyglisverðustu skákirnar?

Ég vil sérstaklega benda á stórskemmtilega skák frá því í gær þar sem Héðinn Steingrímsson lagði Jón Viktor í aðeins 20 leikjum. Mann grunar óneitanlega að Héðinn hafi verið búinn að vera með þessa stöðu á eldhúsborðinu heima hjá sér í nokkurn tíma áður en skákin hófst, hann kom þrælstúderaður til leiks.

Hver heldurðu að sé sigurstranglegastur á mótinu?

Fyrirfram þá finnst manni að Hannes Hlífar sé sigurstranglegastur. En svo finnst mér Héðinn Steingrímsson hafa komið mjög sterkur inn og ég hef trú á að hann muni blanda sér í toppbaráttuna. Maður sér á öllu að hann kemur mjög vel stúderaður til leiks. Svo eru náttúrulega reynsluboltar og baráttujaxlar eins og Þröstur Þórhallsson sem má aldrei afskrifa. Þegar hann fer að sprikla með riddarana sína þá getur allt gerst. En ef Héðinn og Hannes lenda ekki saman í undanúrslitum þá giska ég á að þeir tveir tefli til úrslita.

Annars sakna ég Íslandsmóts kvenna í skák, hvar er það?!

Svar spyrils: Það var ákveðið að halda Íslandsmót kvenna hvorki samhliða landsliðsflokki né áskorendalfokki til þess að við stelpurnar gætu verið með í hinum flokkunum. Ef Íslandsmót kvenna færi fram á sama tíma þá væri þetta ekki hægt.

Já það er rétt, ég greiði atkvæð með þessu! segir Róbert.

Hvernig finnst þér annars aðstæður á mótsstað?

Til fyrirmyndar í alla staði. Ekki síst frábæru samlokurnar hennar Birnu sem renna ljúft niður og eru á spottprís! Svo hefur Bragi Kristjáns verið frábær í skákskýringunum og gaman að taka þátt í því, það myndast góð stemmning hérna.

Ég hvet alla sem lesa þetta að fjölmenna á skákstað, þetta er viðburður sem enginn á að láta framhjá sér fara, enda umgjörð öll hin glæsilegasta. Segir Róbert og hlær að lokum áður en hann vindur sér svo aftur í skákskýringar…


Við þökkum Róberti fyrir viðtalið!

 

 

Engu að tapa  Prenta Senda 
  
 

Hjörvar Steinn Grétarsson: Yngsti keppandi frá upphafi í landsliðsflokki Skákþings ÍslandsViðtal við Hjörvar Stein Grétarsson áður en keppni hefst

 

19. ágúst 2006

Hjörvar Steinn Grétarsson er sem kunnugt er yngsti keppandi frá upphafi í landsliðsflokki Skákþings Íslands, en hann teflir við alþjóðlega meistarann Braga Þorfinnsson í 16 manna úrslitum. Hjörvar Steinn spjallaði aðeins við Guðfríði Lilju áður en keppnin hófst og var hvergi smeykur þótt keppnin yrði hörð. “Ég er bara ánægður að vera með” sagði Hjörvar Steinn, “og ég hef engu að tapa sama hvernig fer”. Hjörvar segir það einstakt tækifæri að fá að „keppa við þessa stóru karla”. “Það er bara gaman að fá Braga í fyrstu umferð þótt auðvitað verði þetta mjög erfitt fyrir mig. Ég geri bara mitt besta.“

Íslandsmótið er að þessu sinni háð með einvígjafyrirkomulagi og útsláttarkeppni þannig að ef Hjörvari Steini tekst ekki að sigra einvígið við Braga í fyrstu umferð mótsins dettur hann úr keppni. „Það var löng skák sem við tefldum á Skákþingi Reykjavíkur fyrr á þessu ári og það er eina kappskákin sem við höfum teflt. Skákin stóð í tæpa 5 klukkutíma og fór í mikið tímahrak.“ Aðspurður um hver hann haldi að vinni mótið segir Hjörvar að honum finnist líklegast að Hannes Hlífar Stefánsson eða Stefán Kristjánsson hreppi Íslandsmeistaratitilinn. „Ég held að þeir séu líklegastir en Þröstur Þórhallsson og Henrik Danielsen geta líka komið sterkir inn. Hannesi Hlífar hefur gengið frekar illa undanfarið svo kannski á Stefán mikla möguleika núna“ segir Hjörvar. „Með þessu einvígjafyrirkomulagi verður þetta mjög spennandi fyrir þá sem eru að horfa. Ég hefði reyndar helst viljað fá að tefla við alla keppendur landsliðsflokks í stað þess að eiga á hættu að detta úr keppni, en þetta er í fyrsta sinn sem ég tefli einvígi svo það er ákveðin upplifun.“

Hjörvar Steinn segir að ef hann falli úr keppni eftir 16 manna úrslit þá ætli hann ótrauður að keppa í áskorendaflokki Skákþings Íslands sem hefst í lok vikunnar og freista þess að ná aftur sæti í landsliðsflokki að ári. Hjörvar Steinn er núverandi Norðurlandameistari í skák í sínum aldursflokki og að lokinni keppni á Íslandsmótinu í skák að þessu sinni tekur við hjá honum að tefla fyrir hönd skólans síns, Rimaskóla, á Norðurlandamóti grunnskólasveita, en mótið fram fer í húsakynnum núverandi Norðurlandameistara, Laugalækjaskóla, aðra helgi í september.

Varðandi hugsanlega framtíðarsigra á sviði skáklistarinnar svarar Hjörvar því hæversklega til að hvað úr honum verði muni tíminn einn leiða í ljós „Ég tek bara eina skák í einu“ segir Hjörvar og brosir.

Við óskum þessum unga afreksmanni til hamingju með að hafa komist í landsliðsflokk Skákþings Íslands. Hvernig sem fer í keppninni þá er stór sigur nú þegar að baki hjá Hjörvari og hann getur staðið sáttur frá borði hvað sem gerist.

sunnudagur 19 maí 05 2019
Nýjustu fréttir
Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri verður haldið laugardaginn 10....
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2016-2017 fer fram dagana 29. sept...
Lenka...
Lenka Ptácníková (2136) varð í gær Íslandsmeistari...
Fréttir frá Skák.is