Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

 

 

Fréttir
19.06.16
Jóhann Hjartarson Íslandsmeistari í skák
Jóhann Hjartarson...

Skákþing Íslands árið 2016 lauk með sigri Jóhanns Hjartarsonar. Jóhann hlaut 8,5 vinning í skákunum ellefu en næstur honum kom Héðinn Steingrímsson með 8 vinninga. Þrír skákmenn deildu þriðja sætinu; Jón Viktor Gunnarsson, Bragi Þorfinnsson og Björn Þorfinnsson, allir með 6,5 vinning. 

Sjaldan hefur Skákþing Íslands boðið upp á jafn skemmtilegar skákir, háspennu og dramatík líkt og raunin varð. Keppendur lögðu allt í sölurnar og báru skákirnar gjarnan þess merki. Til marks um sigurvilja keppenda þá lauk innan við 30% skáka mótsins með jafntefli.


Íslandsmeistarinn

Jóhann Hjartarson er Íslandsmeistari 2016Jóhann Hjartarson sýndi gamalkunna takta í sal Tónlistarskóla Seltjarnarness og tryggði sér sinn sjötta Íslandsmeistaratitil. Jóhann tefldi mjög vel og sigldi taplaus í gegnum mótið. En stundum stóð það tæpt! Jóhann reis upp frá dauðum í gjörtapaðri stöðu gegn Einari Hjalta Jenssyni og stóð afar höllum fæti um tíma gegn Héðni Steingrímssyni sem og gegn Jóni Viktori Gunnarssyni. Jóhann er ekki þekktur fyrir að gefast upp þó á móti blási, enda hélt hann ótrauður áfram að leggja þrautir fyrir andstæðinga sína. Þessi mikla yfirvegun og þrautseigja í erfiðum stöðum skilaði Jóhanni 2 vinningum úr þessum þremur áðurnefndu skákum.

Margir hafa lýst þessum viðsnúningi í skákum Jóhanns sem heppni og kann það vel að vera rétt lýsing. En sú heppni er ekki tilviljanakennd heldur byggir tilvist hennar á sérstöku hugarfari; hugarfari sigurvegarans. Hugarfar Jóhanns í Skákþinginu kom einnig glögglega í ljós undir lok mótsins er helsti keppinautur hans fékk óvænt frían vinning á lokasprettinum. Í stað þess að láta það trufla sig tefldi Jóhann af sömu festu og yfirvegun og hann hafði gert allt mótið. Slíkt andlegt atgervi er gagnlegt mörgum að stúdera og tileinka sér, ekki síst okkar sterkustu skákmönnum sem dreymir um glæsta sigra við skákborðið.

Að því sögðu er hér með skorað á Jóhann Hjartarson að gefa kost á sér í íslenska landsliðið á nýjan leik og miðla þar af reynslu sinni og þekkingu til okkar bestu skákmanna. Jóhann, við þurfum á þér að halda!

 

Lokaumferðin

Lokaumferð og hart barist um ÞráinsstyttunaLokaumferð Skákþingsins var æsispennandi. Jóhann Hjartarson og Héðinn Steingrímsson voru jafnir fyrir hana með 7,5 vinning. Væru þeir enn jafnir að henni lokinni yrði teflt hraðskákeinvígi til að fá úr því skorið hvor þeirra væri Íslandsmeistari.

Jóhann hafði svart gegn Jóhanni Ingvasyni á meðan Héðinn stýrði svörtu mönnunum gegn Einari Hjalta Jenssyni. Fljótlega varð ljóst að Héðinn átti undir högg að sækja á meðan Jóhann hafði mjög vænlegt tafl. Héðinn reyndi allt hvað hann gat að setja Einar Hjalta úr jafnvægi en Einari varð ekki haggað. Peði yfir bauð Einar upp á þrátefli sem Héðinn þáði. Á sama tíma stóð Jóhann til vinnings. Úrvinnslan vafðist ekki fyrir honum og titillinn var í höfn.

 

Vonarstjarnan

7 umferð   Feðgangir Örn Leó og Jóhann ÖrnNokkuð hefur verið deilt um réttmæti þess að Unglingameistari Íslands hljóti sæti í Landsliðsflokki. Er þá gjarnan bent á að líklega verði sá eða sú einungis fallbyssufóður fyrir sér stigahærri og reyndari skákmenn. Núverandi Unglingameistari Íslands, Örn Leó Jóhannsson, blés á allt slíkt tal og kom flestum að óvörum, nema hugsanlega sjálfum sér, með öflugri og þéttri taflmennsku. Örn Leó hlaut 4,5 vinning í skákunum 11 sem gefur honum stigahækkun sem nemur 31 stigi. Frammistaða hans samsvaraði 2354 skákstigum sem er harla gott verandi í fyrsta skipti á stóra sviðinu. Í upphafi móts virtist nokkur skjálfti í pilti enda andstæðingarnir ekki af verri endanum, alþjóðlegur meistari og stórmeistari. Örn Leó komst á blað í 3.umferð er hann gerði jafntefli við stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson. Örn Leó vann þrjár skákir í mótinu, gegn Davíð Kjartanssyni og báðum Þorfinnssonbræðrum. Það verður að teljast ólíklegt að Örn Leó fái jólakort frá Þorfinnsson-fjölskyldunni í ár. Hvernig svo sem það fer þá á Örn Leó svo sannarlega framtíðina fyrir sér og verður gaman að fylgjast með honum næstu misserin.

 

Afrekið

Guðmundur Gísla og Davíð KjartanssonEftir afleita byrjun Guðmundar Gíslasonar reyndu stuðningsmenn hans að stappa í hann stálinu. Það var þó með öllu óþarft. Guðmundur lét engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að tapa fyrstu þremur skákunum og lét hafa eftir sér að hann væri í svo góðu formi að hann myndi taka þetta á endasprettinum. Hófust þá hamskipti Guðmundar og verða þau lengi í minnum höfð. Í 4.umferð svaraði hann sikileyjarvörn stórmeistarans Héðins Steingrímssonar með því að leika hvítreitabiskupi sínum á e2 í öðrum leik. Olli það nokkru fjaðrafoki á meðal áhorfenda. Guðmundur tefldi skákina vel og lagði stórmeistarann að velli. Í 5.umferð settist hann gegnt stórmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni og vann hann líka! Guðmundur vann fjórar skákir í röð og fékk alls 6 vinninga í síðustu 8 skákunum. Þessir 6 vinningar skiluðu Guðmundi 47 skákstigum, frammistöðu upp á 2450 skákstig og 6.sætinu í mótinu. Það sem meira var, Guðmundur náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Guðmundi vantar nú aðeins að ná 2400 stiga markinu til þess að verða útnefndur Alþjóðlegur meistari. Hæst hefur Guðmundur komist í 2382 skákstig á útgefnum stigalista.

 

Örlagavaldurinn

9 umferð Einar Hjalti og Bragi ÞorfinnsÁhrif Einars Hjalta Jenssonar á toppbaráttu Skákþingsins eru óumdeild. Tvær eftirminnilegustu skákir Einars Hjalta á Skákþinginu voru viðureignar hans við Jóhann Hjartarson annars vegar og hins vegar viðureign hans og Héðins Steingrímssonar. Einar Hjalti mætti Jóhanni Hjartarsyni í 8.umferð og hafði svo gott sem unnið skákina þegar hann lék ægilegum afleik og sleppti þar með líflausum verðandi Íslandsmeistara úr snörunni. Einar Hjalti endaði á því að tapa skákinni. Í lokaumferðinni tefldi Einar Hjalti mjög vel gegn Héðni Steingrímssyni og endaði sú skák með jafntefli. Það dugði Jóhanni Hjartarsyni, sem vann sína skák í lokaumferðinni, til þess að vinna mótið.

Sjálfur tefldi Einar Hjalti ágætlega í mótinu og var ekki fjarri toppbaráttunni. Hann lauk keppni með 5 vinninga og var frammistaða hans á pari við skákstigin, 2370.

 

Óvæntasta atvikið

Örn Leó mætti stríðsmálaður 27 mínútum of seint   hafnaði jafntefli og sigraði alþjóðlega meistarann Braga ÞorfinnssonKeppendur og áhorfendur í Tónlistarskóla Seltjarnarness ráku upp stór augu er Örn Leó Jóhannsson kom askvaðandi inn í skáksalinn 27 minútum eftir að lokaumferðin hófst. Hve naumlega Örn Leó slapp við að tapa skákinni vegna 30 mínútna reglunnar var ekki ástæða þess að hann fangaði athygli viðstaddra. Örn Leó hafði nefnilega fyrr um daginn tekið þátt í Lithlaupi svokölluðu og var því ansi vígalega málaður til höfuðsins. Vakti þetta heilmikla kátínu á meðal viðstaddra.

Þykir það tíðindum sæta að keppandi í Landsliðsflokki setjist málaður að tafli, alltént karlkyns keppandi. Gárungarnir höfðu á orði að sjálfur Hulk sæti að tafli í Landsliðsflokki þetta árið. Rímar það með ágætum við handleggi Arnar Leós en þeir eru töluvert gildari en hefðbundnir skákhandleggir. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort þetta sprell Arnar Leós hafi haft truflandi áhrif á andstæðing hans, en hitt er ljóst að Örn Leó vann skákina.

Kjartan Maack

mánudagur 24 júní 06 2019
Nýjustu fréttir
Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri verður haldið laugardaginn 10....
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2016-2017 fer fram dagana 29. sept...
Lenka...
Lenka Ptácníková (2136) varð í gær Íslandsmeistari...
Fréttir frá Skák.is