
Gunnar Björnsson, Gylfi Þórhallsson og Stefán Bergsson stjórnarmaður í Skáksambandinu og félagi í Skákfélagi Akureyrar. Stefán flutti kveðju til Gylfa frá félaginu í tilefni útnefningar hans.
Gunnar Björnsson var endurkjörinn forseti Skáksambands Íslands á átakalitlum aðalfundi þess sem haldinn var laugardaginn 28. maí. Hann hefur verið forseti síðan 2009. Gylfi Þórhallsson var kjörinn heiðursfélagi Skáksambands Íslands fyrir frábært starf í gegnum tíðina. Gylfi hefur verið 27 ár í stjórn Skákfélags Akureyrar, þar af 15 ár sem formaður. Hann hefur verið kjördæmisstjóri Norðurlands eystra í skólaskák, stýrt ýmsum mótum fyrir norðan og má þar nefna m.a. nokkur alþjóðleg skákmót. Aðalfundarmenn stóðu upp fyrir Gylfa allir sem einn og gáfu honum verðskuldað lófaklapp.
Í upphafi fundarins fór forseti Skáksambandins yfir helstu þætti starfsemi þess á liðnu ári. Nefndi hann m.a. mjög vel heppnað Reykjavíkurskákmót, góða frammistöðu íslensku landsliðanna á Ólympíuskákmótinu, Íslandsmeistaratitil Héðins Steingrímsson á Eiðum á Austurlandi og fjóra Norðurlandameistaratitla sem komu í hús á liðnu starfsári.
Einnig var farið yfir það sem er framundan á komandi starfsári. Má þar nefna Reykjavíkurskákmótið en vinna í kringum það er þegar hafin, EM landsliða, EM ungmenna og Norðurlandamót öldunga sem fram fer í Reykjavík í september n.k.
Farið var yfir reikninga félagsins, en afkoman á liðnu ári var góð og skilaði sambandið tæpri milljón í hagnað þrátt fyrir Ólympíuskákmót og Reykjavíkurskákmót.
Gunnar var endurkjörinn forseti með lófaklappi. Með honum í aðalstjórn voru eftirtalin sjálfkjörin: Eiríkur Björnsson, Halldór Grétar Einarsson, Helgi Árnason, Ingibjörg Edda Birgisdóttir Róbert Lagerman og Stefán Bergsson. Í varastjórn voru kjörin: Pálmi R. Pétursson, Andrea Margrét Gunnarsdóttir, Þorsteinn Stefánsson og Haraldur Baldursson.
Tillaga forseta um að stefna að því að endurvekja Tímaritið Skák í prentuðu formi var samþykkt og vísað til stjórnar til frekari vinnu.